Ég ætla að deila með þér góðu ráði sem mun hugsanlega koma í veg fyrir að þú eyðir næstu 2-3 árum af ævi þinni í að byggja upp fyrirtæki sem gerir ekkert annað en að skapa stress og leiðindi fyrir þig.
Ráðið er einfalt: vertu búin að hugsa vel út i það afhverju þú ert að fara út í fyrirtækjarekstur og hvað þú vilt fá út úr honum.

Við höfum öll okkar ástæður fyrir því að vilja fara út í fyrirtækjarekstur, fyrir sum af okkur er það að geta stýrt betur vinnutíma okkar, fyrir aðra er það að fá meiri tekjur og einhverjir eru að þessu til að geta starfað við það sem þeim finnst skemmtilegt. En hver svo sem ástæðan er þá verður þú að vera með hana á hreinu og byggja upp fyrirtækið með það í huga.
Það tekur yfirleitt 2-3 ár í fyrirtækjarekstri að komast á þann stað að reksturinn sé farinn að vera stöðugur og skila hagnaði eða með öðrum orðum að komast út úr mesta harkinu. Á þeim tímapunkt átta margir frumkvöðlar sig á því að reksturinn sem þeir hafa byggt upp er orðin allt annar en sá sem þeir ætluðu að skapa og passar engan vegin við afhverju þeir byrjuðu reksturinn í upphafi.
Þeir sem fóru út í þetta til að stýra betur vinnutíma sínum átta sig á því að þeir þurfa nú að vinna myrkranna á milli til að halda öllu gangandi og eiga engan frítíma lengur. Þeir sem fóru út í þetta til að fá meiri tekjur átta sig á því að allar tekjur fyrirtækisins fara í rekstur fyrirtækisins og þótt svo að fyrirtækið sé að velta háum upphæðum eru þeir ekkert að fá meiri tekjur en þeir voru í gamla starfinu. Þeir sem fóru út í þetta til að starfa við það sem þeim finnst skemmtilegt átta sig á því að tími þeirra fer allur í bókhald, rekstur, starfsmannamál og í raun í allt nema það sem þeim finnst skemmtilegt.
Margir myndu flokka þetta sem lúxus vandamál, þar sem þið eruð kannski búin að byggja upp fyrirtæki sem hefur samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum náð árangri. En við erum frumkvöðlar og við erum ekki að stofna fyrirtæki til að starfa eftir mælikvörðum annara, við erum að þessu til að skapa betra líf fyrir okkur þar sem við höfum tækifæri til að láta drauma okkar verða að veruleika. Við getum því ekki sætt okkur við það að vera föst í einhverju starfi sem okkur líkar ekki við, jafnvel þótt svo við eigum fyrirtækið.
Til þess að hjálpa þér að forðast það að lenda í þessum undarlegu aðstæðum, að byggja upp arðbært fyrirtæki sem skilar þér ekki því sem þú vilt, þá ákvað ég að deila með þér þessu stuttu 10 mínútna námskeiði sem ber titillinn “Afhverju viltu stofna fyrirtæki?”. Smelltu hér til að horfa frítt á námskeiðið.