• Blog
  • About me
Haukur GudjonssonHaukur Gudjonsson
Haukur GudjonssonHaukur Gudjonsson
  • Blog
  • About me

Rekstur á eigin kennitölu

November 8, 2019 Posted by Haukur

Þegar verið er að tala um að stofna fyrirtæki þá er yfirleitt átt við að stofna einkahlutafélag (ehf.) og fara þannig út í formlegan rekstur þar sem reksturinn er allur rekinn undir fyrirtækjakennitölu sem félaginu er úthlutað. Það er þó líka til sá möguleiki að reka fyrirtæki á þinni eigin persónulegu kennitölu og á þínu persónulega nafni, það oft kallað einstaklingsfyrirtæki.

Rekstur á eigin kennitölu getur verið hagkvæm og auðveld leið til að byrja á meðan það er verið að sjá hvort að hugmyndin virki og hvort rekstrargrundvöllur sé fyrir hendi. Það er engin skráningarkostnaður við einstaklingsfyrirtæki en skráning einkahlutafélags er kr.131.000- einnig þarf ekki að leggja neitt hlutafé inn í einstaklingsfyrirtæki á meðan einkahlutafélag krefst kr.500.000- í hlutafé.

Utanumhald um reksturinn er örlítið einfaldari á einstaklingsfyrirtæki þar sem það er ekki þörf á að skila inn ársreikning en það þarf þó að skila inn rekstrarskýrslu með persónulegu skattframtali einstaklingsins. Ef tekjurnar eru hærri en kr.250.000- á ári þarf viðkomandi að skrá reksturinn á launagreiðendaskrá og ef veltan er meira en kr.2.000.000- á 12 mánaða tímabili þá þarf einnig að skrá reksturinn á VSK-skila skrá.

Einstaklingurinn þarf að greiða sér laun samkvæmt viðmiðum RSK en ef viðkomandi er bara að starfa við þetta í hlutastarfi er hægt að greiða sér laun í samræmi við það vinnuhlutfall sem maður vinnur eins lengi og það er hægt að réttlæta það gagnvart RSK t.d. með launaðri vinnu annarsstaðar.

Frá skattalegu sjónarmiði er kannski helsti munurinn sá að allur tekjuafgangur þ.e.a.s. peningur sem ekki er nýttur í rekstur og launakostnað, er sjálfkrafa álitin sem laun og því þarf einstaklingurinn að greiða tekjuskatt og launatengd gjöld af þeim pening.

Mikilvægasti munurinn er á ábyrgðinni, þegar þú ert með rekstur á eigin kennitölu berð þú persónulega fulla ábyrgð á rekstrinum og öllu því sem getur komið upp á í honum. En þegar þú ert með einkahlutafélag ertu með takmarkaða ábyrgð og þannig aðgreiningu á milli ábyrgð félagsins og þín persónulega.

Samanburður

 Eigin kennitalaEinkahlutfélag
Stofnkostnaður     kr.0-kr.131.000-
Hlutafékr.0-kr.500.000-
BókhaldRekstrarskýrslaÁrsreikningur
LaunViðmið RSKViðmið RSK
ÁbyrgðFull ábyrgðTakmörkuð ábyrgð
HagnaðurSkráist sem laun
með tengdum gjöldum.
20% tekjuskattur

Til þess að hefja rekstur á eigin kennitölu þá þarf í raun ekkert að gera annað en að senda reikning út á eigin kennitölu, um leið og þú gerir það ertu tæknilega séð búin að hefja rekstur á eigin kennitölu. Þegar þú ert kominn í meira en 250þús í tekjur þarftu að skrá þig á launagreiðendaskrá og svo þegar þú sérð fram á að vera með meira en 2 milljónir í tekjur þarftu að skrá þig á VSK skila skrá, flóknara er það ekki.

Það er í raun engin takmörkun á hversu miklar tekjur þú getur verið með í rekstri á eigin kennitölu en það sem ber að hafa í huga er að ef þú ert kominn með meiri tekjur en þú þarft til að standa undir almennum rekstrarkostnaði þá gæti verið tímabært að breyta rekstrinum yfir í einkahlutafélag, enda gæti það orðið mjög dýrt að greiða launatengd gjöld af öllum hagnaði félagsins. Bókarinn minn talar yfirleitt um að þegar rekstur gefur orðið meira af sér en viðkomandi þarf að hafa til að standa undir eigin heimilisrekstri þá borgar sig að fara í félag. Oftast er þetta þá um 6 miljónir í ársveltu en svo er það mjög breytilegt eftir aðstæðum.

Ég hef sjálfur persónulega aldrei farið út í rekstur á eigin kennitölu, ég hef alltaf kosið frekar að stofna einkahlutafélag. Hugsanlega var það hérna áður fyrr útaf því að mér var aldrei bent á þennan valmöguleika en í seinni tíð hef ég bara kosið að fara beint út í einkahlutafélag útaf því ég nenni ekki að standa í þessu “millistigi”. Mér finnst líka skipta mjög miklu máli að aðgreina fyrirtækjarekstur frá mínum persónulegu fjármálum og ef ég er með rekstur á eigin kennitölu þá er nær engin aðgreining þar á milli. Sem dæmi ef þið eruð með reksturinn á ykkar eigin kennitölu og eitthvað óvænt kemur upp (t.d. hrun, veikindi) og þið getið ekki greitt reikningana þá geta lánadrottnar sótt á ykkur persónulega.

Fyrir marga getur þetta hugsanlega verið góður kostur enda er þetta að mörgu leiti einfaldara og ódýrara en einkahlutafélag.

Vonandi höfðuð þið gagn og gaman af þessari samantekt og endilega deilið ykkar skoðunum hér fyrir neðan, er sniðugt að vera með rekstur á eigin kennitölu eða ekki?

Share
17

About Haukur

Haukur is a serial entrepreneur with over 15 years experience in founding and scaling up businesses. He actively participates in volunteer work both through teaching and mentoring young entrepreneurs as well as volunteering for the Icelandic Search and Rescue Team.

Contact Us

Send us an email and we'll get back to you, asap.

Send Message

© 2025 Highend

  • Privacy
  • Terms
  •  
  •  
  •