Ég hef sjálfur náð nokkuð góðum árangri í gegnum tíðina þegar ég hef verið að markaðssetja vörur og þjónustu í gegnum Facebook. Þetta er líka það markaðstól sem ég mæli oftast með að frumkvöðlar noti þegar þeir eru fyrst að hefja rekstur enda eru 93% íslendinga inn á þessum miðli og því nokkuð góð leið til að ná til þjóðarinnar. En þótt svo að þetta geti verið gott markaðstól þá getur þetta líka verið algjör hausverkur og peningasuga því að flækjustigið er svo rosalega hátt. Það er þess vegna sem mig langaði til að reyna einfalda þetta aðeins og deila hérna með ykkur nokkrum einföldum leiðum sem þið getið notað til að byrja.
1. Persónuleg færsla
Einfaldasta og fljótlegasta leiðin til að markaðssetja með Facebook er einfaldlega sú að skrifa færslu undir þínum eigin persónulega aðgangi og deila með núverandi vinum þínum. Þrátt fyrir að vera auðveldasta markaðsleiðin á Facebook þá er ótrúlegt hvað margir gleyma þessu eða jafnvel sleppa þessu útaf því að þeir halda að þetta skili ekki neinu. Staðreyndin er þó sú að facebook notendur bregðast alltaf meira og betur við færslum frá vinum heldur en færslum frá einhverjum fyrirtækjum og því er mikilvægt að notfæra sér það. En passið þó að þreyta ekki vini ykkar með endalausum færslum um reksturinn ykkar, deilið frekar hápunktunum og því sem þið eruð stolt af og því sem þið vitið að vinir ykkar hefðu gaman af því að heyra um.
Dæmi: Ég deildi með vinum mínum á Facebook þegar ég byrjaði að kenna aftur námskeið í stofnun fyrirtækja og ég fékk 39 like og 7 share, það er mun meira heldur en maður fær yfirleitt frá ókostuðum færslum sem maður deilir undir fyrirtækjanafni.

2. Búa til FB grúppu
Þetta er mjög áhugaverð leið til að markaðssetja á Facebook útaf því að þarna er maður í raun ekki að markaðssetja neitt í upphafi heldur er maður að smala saman hópi af fólki í kringum sameiginlegt áhugamál. Ég sjálfur tilheyri mörgum grúppum sem ég heimsæki reglulega til að sjá hvað sé í gangi í kringum þau áhugamál og líklega gerum við það flest. Ef þú nærð svo að búa til stóran hóp af fólki í kringum áhugamál sem tengist þínu fyrirtæki þá býður það alltaf upp á þann möguleika að þú getir búið þér til sérstöðu sem sérfræðingur á þessu sviði og yfirleitt er allt í lagi að nefna vöruna sína einstaka sinnum eða jafnvel auglýsa hana í cover mynd grúppunar. Ég hef líka sjálfur oft búið til grúppur í kringum einhver áhugamál til að sjá hvort það sé nægur áhugi hjá fólki til að réttlæta að stofna fyrirtæki í kringum það og þannig mætti líta á þetta sem leið til að sannreyna viðskiptahugmynd.
Dæmi: Ég stofnaði FB grúppu sem heitir Íslenskir frumkvöðlar fyrir nokkrum árum síðan og í dag eru þar 4.400 meðlimir sem allir hafa áhuga á frumkvöðlastarfi, þarna er ég því kominn með góðan hóp af fólki sem flestir hefðu t.d. áhuga á að lesa þær greinar sem ég skrifa um stofnun og rekstur fyrirtækja inn á frumkvöðlar.is auk þess sem ég leyfði mér að setja smá cover mynd til að kynna námskeiðið mitt í stofnun fyrirtækja.

3. Búa til FB fyrirtækjasíðu
Í sumum tilfellum getur fyrirtækjasíða á Facebook komið í staðinn fyrir vefsíður fyrirtækja eða allavegana fyrst um sinn. Þetta er leið til að deila vörumerkinu ykkar og öllum upplýsingum um félagið með almenning, það er líka orðið þannig í dag að margir notendur eru farnir að leita í Facebook frekar en google eða já.is til að finna upplýsingar um fyrirtæki s.s. opnunartíma, staðsetningu o.f.l. En FB fyrirtækjasíður eru farnar að vera miklu meiri áskorun heldur en þær voru hérna áður fyrr og það er oft mjög takmarkað hvað hægt sé að ná til margra nema maður sé tilbúinn að leggja smá pening í þetta. Facebook er meira segja búið að takmarka hversu margir af fylgjendum síðunar sjái hverja færslu og ef maður vill að allir fylgjendurnir sjá færsluna þá þarf að greiða fyrir það. Ég hef aðstoðað frumkvöðla við selja fyrstu eintökin af vörunum sínum með því einu að stofna FB síðu.
Dæmi: Ég er með FB fyrirtækjasíðu fyrir Frumkvöðlar.is og þar get ég verið ófeimnari við að tala um vöruframboðið mitt og lagt smá pening í að boost-a einstaka færslur svo þær nái til fleiri aðila.

4. Boosta færslu
Þegar þú ert á annað borð komin með fyrirtækjasíðu þá geturðu skrifað færslu og “boost”-að hana svo. Eins og ég nefndi hér að ofan þá takmarkar Facebook hversu margir af fylgjendum þínum sjá hverja færslu á fyrirtækjasíðunni og því þarftu að bústa hana. Þú gerir það með því að smella á bláa “Boost Post” hnappinn fyrir neðan færsluna og greiða fyrir það ef þú vilt að fleiri sjái hana.

5. Kaupa auglýsingu
Hægt er að kaupa almennar auglýsingar á Facebook og hnitmiða þær á tiltekna hópa eins og eftir aldri, staðsetningu, áhugamálum og sitthvað fleira. Þetta er rosalega öflug leið til að markaðssetja en á sama tíma virðist hún sífellt verða flóknari hjá Facebook og það er nokkuð erfitt að útskýra hvernig best er að gera þetta í svona stuttri grein. En það sem ég get ráðlagt ykkur er að leggja aldrei háar upphæðir í neina markaðsherferð fyrr en þið eruð fyrst búin að prufa hana og tölfræðin staðfesti það að hún sé að virka. Auglýsingarnar eru þekktar fyrir það að brenna upp pening hjá fyrirtækjum sem kunna ekki almennilega að nota þær.

Facebook markaðssetning er mjög viðamikið umfjöllunarefni og hérna er ég einungis að nefna nokkrar leiðir til að markaðssetja með Facebook en þær eru mun fleiri og einnig væri hægt að kafa mun dýpra í hverja og eina af aðferðunum sem ég nefndi hér að ofan. En ég hefði gaman af því að heyra hvaða leiðir hafa verið að reynast ykkur best og hvaða leiðir þið eruð að nota sem voru ekki nefndar hér að ofan.