Það er nú orðin löng hefð hjá mér fyrir því að nýta áramótin til að skilgreina markmið mín fyrir komandi ár. Ég tek þessu alvarlega og ef ég get reyni ég að taka nokkra daga í þennan feril þar sem markmiðin koma til með að hvíla á öxlum mínum í heilt ár. Flestir af þekktustu rithöfunum og fyrirlesurum um persónulega velgengni eru sammála því að eitt mikilvægasta atriðið til að ná árangri sé að vera með niðurskrifuð markmið og yfirfara þau svo reglulega. Fyrir þá sem eru ekki vanir að setja sér markmið þá getur þetta verið nokkuð erfiður ferill þar sem þetta byggist ekki bara á því að skrifa niður það fyrsta sem þér dettur til hugar heldur þvert á móti þarftu að taka góðan tíma í að átta þig á því hver þú ert og hvað þú vilt fá út úr lífnu. Hjá mér er þetta alsherjar markmiðasetning þar sem ég fer bæði yfir einkalíf mitt og fyrirtækjareksturinn en það er oft þunn lína þar á milli hjá mörgum frumkvöðlum.
Eftirfarandi eru þau þrjú skref sem ég fer í gegnum um hver áramót til að skrá niður eigin markmið fyrir komandi ár, það eru margar aðrar leiðir til að gera þetta en þessi hefur reynst mér best.
1. Hver er ég og hvað vil ég fá út úr lífinu?
Ég undrast alltaf hversu fáir staldra við til að spyrja sig að þessari spurningu. Það er ekkert mikilvægara í lífinu en að þekkja sjálfan sig og vita hvað maður vill fá úr út lífinu. Þetta er á engan hátt auðveld spurning og líklega fæstir sem geta svarað henni án þess að hika eða efast en bara það að þið hafið staldrað við og velt þessu fyrir ykkur kemur ykkur nær því að lifa hamingjusömu lífi. Afhverju ertu að gera það sem þú ert að gera? Afhverju stofnaðirðu þetta fyrirtæki? Hvernig viltu lifa lífinu?
2. Skoða fortíðina.
Áður en farið er að skipuleggja framtíðina þarf að skoða fortíðina og sjá hvað hefur virkað þar og hvað hefur ekki virkað. Í þessu skrefi fer ég vanalega yfir fyrri áramótamarkmið og skoða hvernig ég hef staðið mig í að láta þau verða að veruleika. Ef þú hefur ekki náð að láta eitthvað markmið verða að veruleika þarftu að skoða afhverju það er? Er einhver augljós ástæða fyrir því eða viltu það einfaldlega ekki nógu mikið? Mörg gerum við þau mistök að setja okkur alltof stór markmið svo þegar við náum þeim ekki höldum við að markmiðasetning gangi ekki. Staðreyndin er sú að illa úthugsuð markmið skila engu.
3. Handskrifa markmiðin.
Hversu mörg markmið þið endið með getur verið breytilegt og fer algjörlega eftir ykkur sjálfum. Þetta gæti vetið eitt stórt markmið eða mörg minni. Lengi vel hafði ég það sem viðmið að reyna alltaf að skrá niður 10 markmið á hverju ári og það reyndist mjög vel og ég myndi í raun mæla með að þið mynduð miða við 10 markmið. Náið ykkur svo í blað og penna og handskrifið markmiðin, það skilar einhvern veginn svo miklu meiri tengingu við markmiðin að handskrifa þau frekar en að rita þau bara í tölvuna.
Síðast en ekki síst þurfið þið að yfirfara markmið
ykkar reglulega yfir árið og vinna markvisst
að því að láta þau verða að veruleika.