Fyrsta skipti sem ég stofnaði fyrirtæki þá keypti ég rekstur sem var nú þegar í gangi og gat þannig fengið hlaupandi start á rekstur minn. Það voru nú þegar einhverjar tekjur í hverjum mánuði og markmiðið mitt var einfaldlega að auka þær með einhverjum snilldarlegum ráðum sem án efa myndu koma upp í huga mér. Lítandi til baka þá voru fullt af mistökum sem ég gerði t.d. það að ég þurfti að veðsetja mig til að geta tekið lán fyrir fyrirtækinu en í dag myndi ég frekar kjósa að fara „bootstrap” leiðina. Ég fékk líka ættingja til að skrifa undir sem ábyrgðarmaður en ég myndi aldrei á milljón árum gera það í dag og svo eyddi ég líka óþarflega miklum pening í að láta fyrirtækið líta vel út í staðinn fyrir það að einbeita mér að sölu. En burt séð frá þessum mistökum mínum þá getur það oft verið sniðug leið til að byrja í rekstri að kaupa fyrirtæki sem er nú þegar í rekstri. Hafið það bara í huga að fá reyndari aðila til að kíkja yfir þetta með ykkur og verið viss um að seljandinn sé traustur aðili. En hvar finnur maður svo fyrirtæki til sölu?
Það eru nokkrar vefsíður með fyrirtæki til sölu á skrá og eru þau eftirfarandi:
Fyrirtækjasalan Suðurveri

www.fyrirtaeki.is: Líklega elsta fyrirtækjasalan á landinu og einmitt þar keypti ég mitt fyrsta fyrirtæki.
Fyrirtækjasala Íslands

www.atv.is: Ég hef ekki átt viðskipti við þá en þeir eru búnir að vera til í einhvern tíma.
Fyrirtækjakaup.is

www.fyrirtaekjakaup.is: Þessi vefsíða var bara að opna og á vonandi eftir að gera góða hluti.
Annars má einnig oft finna lítil fyrirtæki til sölu hjá fasteignasölum eða bara í gegnum einhverja sameiginlega vini sem benda manni á þau. Ég er líklegast að gleyma einhverju eða hugsanlega er eitthvað þarna úti sem ég þekki ekki og því bið ég ykkur vinsamlegast um að kommenta hér fyrir neðan ef þið eruð með einhverjar fleiri vefsíður eða fyrirtæki þar sem má nálgast upplýsingar um slíkt.
Munið svo bara að fara varlega í öll viðskipti með fyrirtæki þar sem það eru margir hlutir sem þarf að huga að og þið viljið alls ekki kaupa köttinn í sekknum.